Nú munu Strengir bjóða Galtalæk með Minnivallalæk frá og með 1. apríl næstkomandi er veiði hefst í þessum silungsveiðiám.

Galtalækurinn er vel þekktur fyrir sína væna urriða líkt og Minnivallalækur. Galtalækurinn er aðeins ofar á Landveginum og aðeins um 10 mín. að akstur á milli þeirra.

 

Ekki verður fjölgað stöngum þrátt fyrir stækkun og áfram fjórar stangir í boði líkt og verið hefur áður og óbreytt verð nema að í júní verður stangardagurinn með gistingu í Veiðihúsinu Lækjamót á milli 40-50 þús. Að öðru leyti er verðið kr. 24.800 í apríl og september, en kr. 32.800 í maí,júlí og ágúst. Hámark tvær stangir geta veitt í senn í Galtalæk og veiðimenn hafa þar með rúmt um sig í báðum ám og glæsilegt veiðihús til afnota! Hverri stöng fylgir með uppábúið herbergi tveggja manna en víða í nágrenninu á suðurlandi kostar slík gisting hátt í svipaðar upphæðir. Það vill oft gleymast og ef veiðileyfið er tekið með í reikninginn er óhætt að segja að verð sé ekki óhóflegt og  umgjörðin er einstök við veiðihúsið eins og sjá má á myndum.

Sérstök veiðibók verður í Veiðihúsinu Hálsakoti fyrir Galtalæk og önnur fyrir Minnivallalæk og sérstök áheyrslu lögð á að menn skrái alla veiði skilmerkilega. Skráning veiði hefur oft verið ábótavant í Galtalæk en þar með ætti hún að komast í gott lag. Veitt og sleppt verður óbreytt skylda í báðum ám líkt og verið hefur undanfarinn ár.

Yfirleitt verða allar fjórar stangir seldar saman frá hádegi til hádegis líkt og verið hefur, en með stuttum fyrirvara verður gefin kostur á að kaupa færri stangir og jafnvel staka daga eftir nánari samkomulagi.

Verið velkomin í þessa stórurriðaparadís stutt frá Reykjavik!

Þröstur Elliðason