Myndbönd

Spennandi og fjölbreytt veiðisvæði og flott veiðihús

Gjöfult laxveiðisvæði í Jöklu ásamt hliðaránum Fögruhlíðará, Kaldá og Laxá!.

Þetta Jöklusvæði gaf um 500 laxa sumarið 2016 og hefði verið mun meira ef Jökla sjálf hafi ekki farið á yfirfall seint í ágúst. En veiði hélt áfram í hliðaránum og tæplega helmingur veiðinnar er þaðan sumarið 2016. Fyrir sumarið 2017 verður þetta svæði stytt aftur í fyrri mörk eða upp að veiðimörkum ofan Hvannárbreiðu. Ekki er talin þörf á að lengja svæðið þar sem fjölmargir glæsilegir hylir og flúðir eru að uppgötvast á hverju sumri og menn eiga erfitt með að komast þegar yfir alla veiðistaði á þessu víðfema veiðisvæði. Og nú verður hægt að kaupa staka daga snemma og seint á veiðitímabilinu án skyldugistingar og fæðis og líka aukinn sveigjanleiki með fæðiskyldu í Veiðihúsinu Hálsakoti.

Jökla I og Fögruhlíðará er 6 – 8 stanga svæði frá og með 1. júlí til 30. september, aðallega sem laxveiðisvæði þó að silungur veiðist áfram út allt sumarið en um 150 silungar veiddust líka 2016. Aðallega sjóbleikja og þær voru allt að 65 cm þær stærstu og þá úr Kaldá! Annars hefur svæðið alla Fögruhlíðará ofan Réttarhyls ásamt Jöklu við Hvannárbreiðu niður til ósa en til svæðisins teljast í leiðinni einnig Kaldá, Laxá og Fossá sem renna í Jöklu úr norðri . Þetta er gríðarlega mikið og fjölbreytt svæði þar sem veitt er í miklu vatni í Jöklu og allt niður í litlar og nettar ár eins og Laxá sem er mjög skemmtileg fyrir litlar einhendur ásamt Fögruhlíðará. Samtals er svæðið um 40 km langt og því verður afar rúmt um veiðimenn og miklir möguleikar á því að kanna ótroðnar slóðir. Þó er góð aðkoma að mörgum veiðistöðum og ekki þörf á að ganga langar vegalengdir víðast hvar. Eingöngu er leyfð fluguveiði í júlí og til síðla ágústs enda hentar svæðið ákaflega vel til þess. Eftir það má veiða á maðk og spón. Skyllt er að sleppa öllum löxum 70 cm og stærri og og hirða má tvo laxa á dag á stöng undir þeim mörkum og sleppa öðrum. Að auki er æskilegt að sleppa öllum löxum sem veiðast ofar Hólaflúðar í Jökuldal, enda eru vannýtt uppeldissvæði að finna þar uppfrá þar sem æskilegt er að leyfa laxinum að hrygna sem mest.
Það þykir mörgum langt að aka alla leið austur í Jöklu frá Reykjavík. En einfalt er að fjúga til Egilsstaða og leigja bíl á Egilsstaðaflugvelli og stytta þar með ferðatímann gríðarlega. Spara líka ferðakostnað ef 3-4 veiðimenn taka sig saman um einn jeppa og þar með eru veiðimenn á leið á Jöklusvæðin komnir í veiðihús eftir aðeins einn og hálfan tíma frá Reykjavík!
Horfurnar eru mjög góðar fyrir 2017 þar sem mikið af seiðum er talið hafa gengið til sjávar vorið 2016 sem gefur vonir um miklar smálaxagöngur og sleppingar seiða voru í hefðbundnum farvegi .

 • Staðsetning:  Fjarlægð frá Reykjavík: ca. 660 km. Frá Egilstöðum: Samtals um 50 km. Ekið er um þjóðveg 1 sem leið liggur vestur til Akureyrar. Þegar komið er yfir brúna yfir Jöklu er beygt til hægri inn á þjóðveg 917. Rétt áður en farið er yfir brúna á Kaldá er beygt til vinstri við afleggjara merktur Másselog blasir þar glæsilegt veiðihús okkar við. Frá Akureyri: Ekið er um þjóðveg 1 í átt til Egilsstaða. Vestan megin við brúna yfir Jöklu rétt áður en komið er að er beygt til vinstri inn á þjóðveg 917. Rétt áður en farið er yfir brúna á Kaldá er beygt til vinstri við afleggjara merktan Mássel og blasir þar glæsilegt veiðihús okkar við.
 •  Veiðisvæði:  Jökla frá með ósi að og með Hvannárbreiðu ásamt Laxá, Kaldá, Fossá og einnig Fögruhlíðará ofan Réttarhyls.
 •  Tímabil:  1. júlí – 30. september.
 • Veiðileyfi:  Tveir eða þrír dagar í senn frá hádegi til hádegis og stakir dagar einnig frá morgni til kvölds.
 •  Daglegur veiðitími:  Daglegur veiðitími kl. 7 – 13 og kl. 15 – 21 eftir hádegi. Brottfarardag síðasta morguninn skal veitt til kl. 12:00.
 •  Fjöldi stanga:  Leyfðar eru 6-8 stangir.
 •  Verð:  Stöng á dag á bilinu kr. 29.800 – 79.800
 • Veiðireglur:  Fluga eingöngu leyfð í júlí og til síðla ágúst en maðkur og spónn er einnig leyfður eftri það og í september. Er skyllt að sleppa öllum löxum 70 cm og stærri. Leyfilegt er að hirða tvo laxa á stöng á dag undir þeim mörkum og veiða og sleppa eftir það. Æskilegt er að í Hólaflúð og ofar í Jöklu verði öllum laxi sleppt enda eru góð uppeldissvæði þar sem eru vannýtt og vantar lax þar til hrygningar.
 • Vinsælar flugur:  Snælda, Rauð Frances, Svört Frances, Friggi, Sunray Shadow, Black and Blue.
 •  Veiði síðastliðin ár:  Um 500 laxar og 150 silungar.
 •  Umsjónarmaður/veiðivörður:  Guðmundur Ólason 471 – 1019 og 660 – 6893.
 •  

Á bökkum Kaldár stendur nýtt og stórglæsilegt veiðihús til afnota fyrir veiðimenn á Jöklusvæðinu. Það var byggt árið 2007 og býður upp á frábæra aðstöðu og er samtengt á verönd við fjögur smærri hús með átta tveggja manna herbergjum, hvert með sér baðherbergi og sturtu. Meginhúsið hefur upphitaða vöðlugeymslu, aðgerðarherbergi með frystikistu, frábærri setu- og borðstofu með arin, eldhúsi með öllum nauðsynlegum tækjum og skemmtilegri verönd að flatmaga á í hléinu og góðviðrisdögum. Rétt áður en komið er að brúnni yfir Kaldá er beygt til vinstri við afleggjara merktur Mássel (ef komið er að sunnan) og þá blasir veiðihúsið við.

Umsjónarmaður er Guðmundur Ólason í síma 471 – 1019 og 660 – 6893

Hægt er að velja fullt fæði sem kostar þá á bilinu 20.000- 27.800 á mann á dag og miðað þá við fyrsta flokks fæði og þjónustu. Ekki er núna skyldugisting snemma og seint á veiðitímanum og holl geta einnig tekið eingöngu gistingu og elda þá sjálfir og verð er þá eftir nánari samkomulagi.