throstur15big

Þröstur Elliðason

Að mestu verður skipulag fyrir 2020 það sama og áður en verð veiðileyfa munu reyndar bæði lækka og hækka eftir ám og svæðum. En skoðum það betur:

Mikið af laxi gekk í Jöklu en vegna yfirfalls úr Hálslóni 6. ágúst hægði á veiðinni þó alltaf væri reytingur í hliðaránum af laxi. Ljóst er að metveiði hefði líklega verið á vatnasvæðinu eða um eða yfir 1.000 laxar ef hægt hefði verið að veiða Jöklu sjálfa allt sumarið. Verð veiðileyfa á Jöklu I munu hækka í júlí en lækka í ágúst í ljósi reynslunnar af yfirfallinu úr Hálslóninu, svo ef ástandið verður aftur eðlilegt í ágúst komast menn í góða veiði fyrir minni kostnað en áður á því svæði. Fyrri hluti sumars er vel bókaður svo áhugasamir hafi samband sem fyrst.  Frekari endurbætur verða gerðar á Veiðihúsinu Hálsakoti fyrir sumarið 2020, þar á meðal sett upp sauna hús á verönd. Fæði og gistigjald hækkar í júlí, en ódýrara verður seinnihluta sumars og jafnvel gisting án skyldufæðis þá möguleg fyrir hópa. Og Jökla II nýtur meira vinsælda og nýjir veiðistaðir eru að uppgötvast þar uppfrá á hverju sumri og verð veiðileyfa verður áfram stillt í hóf þar. Góð silungsveiði var þetta árið, sérstaklega í Fögruhlíðarósi og í bland sjóbirtingur með sjóbleikjunni.

Hrúta líkt og aðrar ár á svæðinu og vesturlandi var nánast vatnslaus fram eftir sumri og lítil veiði, en er loks rigndi seinni hluta sumars tók veiðin mikinn kipp allt til loka.Töluvert var af laxi í ánni í haust og má segja að áin hafi náð að halda sínu þrátt fyrir erfiða byrjun með um 400 laxa á stangirnar þrjár. Um 200 bleikjur eru einnig skráðar í veiðibók sem er góð aukning frá fyrri árum. Fyrir sumarið 2020 verður komin upp hús með sauna-tunna á veröndinni sem er mikil lyftistöng fyrir veiðihúsið svo veiðimenn geti slakað vel á í lok veiðidags. Flestir vilja halda sínum hollum en þó geta losnað um og áhugasamir geta komist á biðlista fyrir 2020 ef þeir hafa samband.

Breiðdalsá glímdi við vatnsleysi framan af sumri og hefðbundnar göngur af nýjum laxi síðsumars komu ekki er aðstæður urðu betri og lokatölur voru vonbrigði rúmlega 70 laxar. Silungsveiðin voru tæplega 300 sjóbleikjur og urriðar sem er líka færri fiskar en oft áður. Verð veiðileyfa á laxasvæðinu munu lækka fyrir 2020 þrátt fyrir auknar seiðasleppingar sl tvö ár og einnig verður áfram hægt að gista í Veiðihúsinu Eyjar með eða án fæðis eftir nánari samkomulagi.

Minnivallalækur var mun betri sumarið 2019 en rigningarsumarið 2018 og aðstæður ágætar og um 300 urriðar veiddust í læknum þetta sumarið sem er nálægt meðalveiði sl. ára. Ávallt vinsæll og stutt frá Reykjavík og frábært hús á árbakkanum gerir þetta að einstakri perlu.

Bókanir eru hafnar af krafti og farið að þettast á sumum tímabilum og svæðum svo endilega hikið ekki að hafa samband sem fyrst…

Bestu kveðjur,

Þröstur Elliðason