throstur15big

Þröstur Elliðason

Að mestu verður skipulag fyrir 2018 það sama og áður og verður jafnvel enn meiri sveigjanleiki á gistingu og fæði í veiðihúsum okkar fyrir austan í Breiðdalsá og Jöklu og hægt að kaupa þar staka daga meira en verið hefur. Einnig verða veiðimörk á milli svæðana Jöklu I og Jöklu II færð í fyrra horf líkt og var 2016 ofan Húsármóta svo Jökla I svæðið stækkar sem því nemur fyrir 2018. Áfram verður kvóti tveir laxar undir 70 cm sem má hirða á dag í öllum okkar laxveiðiám. Verður að telja að það fullnægi þörfum flestra til að fá lax í soðið, en um leið tryggjum við líka nægilegan fjölda laxa til hrygningar og/eða klakköflunar vegna fiskræktar. Engin takmörk eru á að veiða og sleppa eftir að kvótanum er náð. Þó er æskilegt að sleppa öllum laxi í Jöklu sjálfri því þar vantar lax til hrygningar á nýjum uppeldissvæðum sem komið hafa í ljós við nánari reynslu. En skoðum þetta nánar hér fyrir neðan:

BREIÐDALSÁ var með mikla niðursveiflu en 106 laxar voru bókaðir í veiðibók. Reyndar byrjaði veiðin þokkalega en dró af er leið á sumarið enda vantaði meira af smálaxi eins og víðar á norðausturlandi og einnig voru aðstæður óvenju slæmar. Engin úrkoma var í júlí og ágúst og menn muna ekki aðra eins þurrka sem hafði slæmar afleiðingar fyrir ágústmánuð sérstaklega. Og í september gerði nokkur stórflóð sem hömluðu veiði svo það var annaðhvort í ökkla eða eyra er óhætt að segja með aðstæður sumarsins. En einn af stærstu löxum á landinu kom á land úr Sveinshyl í byrjun september eða 108 cm hængur sem er stærsti lax í sögu Breiðdalsár svo vitað sé. Sjóbleikjuveiðin var um 150 fiskar og ríflega 500 urriðar sem gerir þetta með bestu silungsveiðiám austurlands. Svo samtals veiddust því tæplega 800 fiskar í heildina úr vatnakerfi Breiðdalsár.Lækkað verð verður á veiðileyfum sumarið 2018 í Breiðdalsá og má segja að þau séu mjög hófleg miðað við margar aðrar veiðiár.
Einnig verður meiri sveigjanleiki að taka staka daga eða fleirri án skyldufæðis og koma þannig á móts við sem séróskir ef menn vilja. Einnig verður áfram boðið upp á þann kost að hægt er fyrir hópa sem taka allt Veiðihúsið Eyjar án fæðis ef þess er óskað, eða taka t.d. heimilisfæði  á lærra verði. Að öðru leyti verður fæði-og gistigjald á bilinu kr. 20.000-24.800 á mann á dag og þá miðað við fyrsta flokks fæði og þjónustu. 

Sjóbleikjuveiðin á silungasvæði Breiðdalsár var meiri en verið hefur undanfarin ár og laxar veiddust einnig aðeins í bland á svæðinu. Góð urriðaveiði er á efri hluta Breiðdalsár og inn á milli vænir fiskar og er svæðið án efa með betri silungsveiðiparadísum á austurlandi. Engin skyldugisting er fyrir silungsveiðimenn en velkomið að gista í Veiðihúsinu Eyjar bæði í fullri þjónustu eða án hennar eftir nánari samkomulagi. Verð veiðileyfa á silungasvæðinu er kr. 15.000 dagurinn fyrir sumarið 2018.

Hrútan gaf 384 laxa sem rétt undir meðalveiði árinnar en er samt frábær veiði á einungis þrjár stangir. Einnig eru 136 bleikjur skráðar í veiðibók sem er góð aukning frá fyrri árum. Ekki verður komist hjá verðhækkunum í Hrútu sumarið 2018 enda hefur kostnaður vegna leigu og seiðasleppinga verið að hækkað árlega.

Jöklusvæðið kom ágætlega út 2016, heildarlaxveiði 355 laxar og er þá talin með Fögruhlíðará. Fylgir hún með Jöklu I svæðinu en Fögurhlíðarósinn er seldur sér og þar var mun meiri bleikjuveiði en undanfarin ár með hátt í 500 fiska! Aðrar hliðarár Jöklu voru í meðallagi, Kaldá og Laxá, og Jökla sjálf góð. Reyndar kom yfirfall seint í ágúst en annars hefði veiðin orðið meiri í Jöklu og einnig ef ástundun í september hefði verið meiri í þeim mánuði í hliðaránum. Með silungsveiðinni er heildarveiðin um 1000 fiskar á Jöklusvæðunum sem er mjög gott.
Verð veiðileyfa á svæðinu Jöklu I og Fögruhlíðará verður óbreytt milli ára en lækkar á Jöklu II!. Og við munum áfram bjóða upp á þann kost að hægt er fyrir hópa sem taka allt húsið að kaupa gistingu í Veiðihúsinu Hálsakot án fæðis ef þess er óskað eða taka t.d. heimilisfæði  á lærra verði. Að öðru leyti verður fæði-og gistigjald á bilinu kr. 20.000-27.800 á mann á dag og þá miðað við fyrsta flokks fæði og þjónustu. 

Jökla II svæðið verður fyrir 2017 niður að veiðimörkum ofan Húsárbreiðu líkt og áður var fyrir 2016 og svæðið styttist sem því nemur. Lækkun verður á verði veiðileyfa og stangardagurinn verður á bilinu kr. 10.000- 35.000 og er þar með eitt ódýrasta laxveiðisvæði landsins er óhætt að segja. Engin skyldugisting en veiðimönnum stendur til boða gisting á Gistihúsinu Skjöldólfsstöðum alveg við árbakkann og einn besti veiðistaðurinn Hreyndýrabakkinn er beint þar fyrir framan! Aðrir gistimöguleikar eru í Veiðihúsinu Hálsakot og jafnvel víðar.

Jökla III tekur ofan brúar við bæinn Merki sem tilraunasvæði með 6 stöngum á hóflegu verði kr. 5.000 og allt agn verður áfram leyft þar. Töluvert mikið af bleikju veiddist þar í sumar í þau fáu skipti sem rennt var og fyrstu laxar komu á land á svæðinu 2016 svo það er spennandi og ódýr kostur. En almennt er greinilegt að bleikjan er í mikilli sókn í Jöklu sjálfri enda er gjörbreytt vistkerfi þar sem jökulvatnið er að mestu horfið nema í stuttan tíma síðsumars. Gisting stendur veiðimönnum til boða á Gistihúsinu Skjöldólfsstöðum neðar í Jökuldal og víðar líkt að bænum Grund sem er á þessu svæði.

Fögruhlíðarós er góður sjóbleikjustaður og veiðin þar var aftur hátt í 500 fiska og þar af var eitthvað af urriða og sjóbirtingi sem slæðist með og nokkuð af laxi. Hægt er að fá gistingu ef laust er í Veiðihúsinu Hálsakoti eftir nánara samkomulagi.

Minnivallalækur var með svipaða veiði og undanfarin ár eða tæplega 300 urriða, en marga stóra. Nýjir veiðistaðir uppgötvuðust 2016 fyrir ofan Veiðihúsið Lækjamót og fjölbreyttni svæðisins jókst mikið við það. Stangardagurinn verður að mestu óbreyttur á kr. 24.800 vor og haust og kr. 32.800 í júní og ágúst, og innifalið er alltaf uppábúið herbergi í Veiðihúsinu Lækjamót. Stutt er frá Reykjavik og frábær staðsetning á veiðihúsi alveg á árbakkanum gerir þetta að sérsaklega skemmtilegum valkosti fyrir smærri hópa og fjölskyldur!

Allt er komið á fullt vegna sölu næsta árs, fastaholl virðast ætla að halda öllum sínum dögum í Hrútafjarðará en getum boðið upp á lausar stangir í öðrum ám okkar og áhugasamir hafi samband sem fyrst með nánari upplýsingar um lausa daga. Einnig má skoða stöðuna á vefnum undir laus veiðileyfi sem verður uppfærður reglulega. Eftir gott vor og sumar 2017 er ljóst að mikið af gönguseiðum gekk til sjávar þá og má búast því við sterkum smálaxagöngum 2018 miðað við fyrri reynslu. Við hjá Strengjum hlökkum til að heyra í ykkur.

Þröstur Elliðason