Þröstur Elliðason

Þröstur Elliðason

Við bíðum spenntir eftir sumrinu í okkar laxveiðiám Breiðdalsá, Jöklu og Hrútafjarðará og allavega er ljóst að vatnsbúskapur stefnir í að vera í góðu lagi fyrir sumarið 2014 í þessum ám.  Almennt virðist vera gríðarlegur snjór til fjalla fyrir norðan og austan og litlar líkur á að vatnsleysi muni nokkuð hamla veiði í þessum ám á næstu vertíð.

Ljóst er að heimtur í Breiðdalsá voru óvenju lágar sumarið 2013 og laxveiðin sú minnsta síðan 2003 eða 305 laxar.  En það sem fer niður kemur aftur upp og engin ástæða til annars en að leiðin sé nú upp á við í Breiðdalnum og er ekkert óeðlilegt að óvæntar sveiflur verði þar í veiði. Um helmingur af veiðinni var veit og sleppt og gott hlutfall var af stórlaxi eins og verið hefur undanfarin ár. Þó var smálax meira áberandi 2013 en sumarið 2012  svo það veit á meiri stórlax fyrir næsta sumar. Breiðdalsá er einstök perla með umhverfi sem á engan sín líka á landinu og allur aðbúnaður fyrsta flokks sem svíkur engan. Vegakerfið um ánna er til fyrirmyndar og ekki skemmir mikil stórlaxavon og það má segja að þessi á bjóði meira upp á gæði en endilega alltaf mikið magn af fiski. En í framhaldi af sumrinu munu Strengir bjóða upp á verðlækkun 2014 á bilinu 20-30%  ásamt því að fjölda stangardaga verður fækkað, t.d. verður ekki opnuð áin fyrr en 8. júlí og hugsanleg stangarfækkun á vissum tímabilum. Einnig mun vera hægt fyrir hópa að kaupa gistingu í Veiðihúsinu Eyjar án fæðis ef þess er óskað eða taka t.d. heimilisfæði  á lærra verði. Að öðru leyti verður fæði-og gistigjald óbreytt á milli ára eða kr. 22.800 á mann á dag og þá miðað við fyrsta flokks fæði og þjónustu.
Bleikjuveiðin var meiri en verið hefur undanfarin ár og laxar veiddust einnig aðeins í bland á silungasvæðinu. Silungsveiðimenn geta nú gist í Veiðihúsinu Eyjar allt til 8. júlí fyrir einungis kr. 14.800 á mann veiði með gistingu og er þá ekki í kot vísað miðað við aðstöðuna! Eftir það verður áfram oft gistipláss fyrir silungsveiðimenn í eða við veiðihúsið út sumarið.

Jöklusvæðið koma ágætlega út eftir rólega byrjun en meirihluti veiðinnar var núna ofan Steinbogans í fyrsta sinn. Hliðarárnar neðar í Jökulsárhlíð Laxá, Kaldá og einnig Fögruhlíðará voru með minni veiði en undanfarinn ár og voru heimtur á gönguseiðum þar því einnig mjög lágar eins og í Breiðdal. En ekki kom þó til niðursveiflu því lokatölur voru 411 laxar á öllum svæðum og má það þakka sleppingu sumaralina seiða sl. fimm ár í Jöklu sjálfa sem eru byrjaðar að slá inn sem hrein viðbót í veiðina. Ljóst er að Jökla sjálf fóstrar þessi seiði vel á 2-3 árum áður en þau ganga til sjávar og tryggir það aukinn stöðugleika í veiði og aukninginn er sérstaklega mikil á efri svæðum Jöklu I og á nýja svæðinu Jöklu II einnig. Verð veiðileyfa á Jöklu I og Fögruhlíðará verður á svipuðum nótum sumarið 2014. Og nú mun Jökla II svæðið byrja fyrir ofan Hvannárbreiðu og upp að Gilsá þar sem þjóðvegurinn kemur niður í Jökuldalinn. Það verður sex stanga svæði þar sem eingöngu fluguveiði verður leyfð sumarið 2014 og stangardagurinn verður þar á bilinu kr. 7.000- 29.800.Þetta svæði sló í gegn í sumar með tæplega 70 laxa þó það væri lítið stundað enda um að ræða þar alveg nýtt landnám fyrir laxinn. Og nú mun svokallað Jökla III svæði taka við fyrir ofan Gilsá sem tilraunasvæði með 6 stöngum á hóflegu verði eða kr. 7.000 – 14.800 og allt agn verður leyft þar. Nokkrir laxar veiddust þar uppfrá einnig sl. sumar og töluvert mikið af bleikju í þau fáu skipti sem reynt var svo það er spennandi og ódýr nýr kostur. En almennt er greinilegt að bleikjan er í mikilli sókn í Jöklu sjálfri enda er gjörbreytt vistkerfi þar sem jökulvatnið er að mestu horfið nema í stuttan tíma síðsumars. Og einnig er Fögruhlíðarósinn frábær sjóbleikjustaður þó bleikjan þar geti oft verið með eindæmum dyntótt. Hægt er að fá gistingu í nýuppgerðu íbúðarhúsi að bænum Breiðumörk fyrir silungsveiðimenn í Fögruhlíðarós.

Gisting er í Veiðihúsinu Hálsakot fyrir svæðið Jöklu I og Fögruhlíðará og kostar kr. 22.800 á mann á dag með klassafæði, en hópar geta sleppt fæðinu sé þess óskað og eingöngu greitt fyrir gistingu og eldað þá sjálfir. Gisting vegna Jöklu II og Jöklu III verður hægt að fá á Gistiheimilinu Skjöldólfsstöðum sem er nánast á árbakkanum í Jökuldal og stutt að fara þaðan á þessi svæði.
Hrútan sló í gegn með metveiði eða 702 laxa og kom þar saman mikill lax og góður vatnsbúskapur og stöðuga og mikla veiði frá upphafi 1. júlí og nánast út veiðitímabilið til loka september. Megnið var smálax en þó voru ríflega 100 tveggja ára laxar í aflanum og um 25% af heildarveiðinni var sleppt aftur sem er mun lærra hlutfall en í Breiðdalsá og Jöklusvæðinu. Bleikjuveiðin var slök eða einungis 30 skráðar í veiðibókina, en ekki víst að hún hafi mikið komist að vegna lax þegar hann safnaðist á neðstu staðina sem geyma líka bleikju snemmsumars og eftir það voru menn væntanlega að einbeita sér að öllum laxinum ofar í ánni.Ekki verður komist hjá verðhækkunum í Hrútu sumarið 2014 enda hefur kostnaður vegna leigu og seiðasleppinga hækkað mun meira en veiðileyfin þar undanfarin ár.

Líkt og í Breiðdalsá verður kvóti tveir laxar undir 70 cm nú einnig settur á fjölda laxa sem má hirða  á stöng á dag næsta sumar bæði á Jöklusvæðinu og í Hrútu. Verður að telja að það fullnægi þörfum flestra til að fá lax í soðið, en um leið tryggjum við líka nægilegan fjölda laxa til hrygningar og/eða klakköflunar vegna fiskræktar. Engin takmörk eru á að veiða og sleppa löxum eftir að kvótanum er náð.

Minnivallalækur var með svipaða veiði og undanfarin ár eða með tæplega 300 urriða, en marga stóra. Einn þeirra var yfir 90 cm og kom í september hjá erlendum veiðimanni en veiðin var ágæt er er leið á sumarið eftir erfitt vor þar. Stangardagurinn verður á bilinu 24.000-29.000 næsta sumar en innifalið er uppábúið herbergi í Veiðihúsinu Lækjamót sem er nú svipað og gisting kostar víða í nágrenninu. Það er því óhætt að segja að veiðileyfið sjálft er mjög hóflegt ef tekið er tillit til þess hvað er innifalið.

Salan er hafin fyrir 2014 og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband fljótlega því ljóst er að Ísland verður vinsælt árið 2014 hjá erlendum veiðimönnum eftir aflabrest víða í nágrannalöndunum sl. sumar.

Hlakka til að heyra í ykkur,
Þröstur Elliðason