Okkar laxveiðiár opnuðu í morgun 1. júlí og fyrstu fréttir lofa góðu.

Breiðdalsá opnaði með 4 löxum í dag og þar af voru þrír úr Skammadalsbreiðu, og engin annar er Jón Skelfir tók tvo af þeim og sá stærri 84 cm sem sést hér fyrir ofan í háfinum. En stærsti laxinn í dag úr Breiðdalsá var 90 cm úr Gunnlaugshlaupum.

Jöklusvæðið opnaði formlega í dag en þó kom óvænt lax á land í gær 30 júní á efri svæðum Jöklu af silungsveiðimanni svo hann er að rjúka upp Jökuldalinn! Reyndar er áin komin strax í sumarvatn og allt að 12-14C heit svo engin furða að hann gangi hratt upp. Fimm laxar eru komnir á land en aðeins einn lax var undir 80 cm af þeim.

Á mynd hér fyrir ofan má sjá Magna Bernhardsson með einn 85 cm úr Fossárgrjótum í Jöklu tekin klukkan rúmlega sjö í morgun.

Í Hrútu opnaði Karl Ásgeirsson ánna og hann sendi okkur þessa línu um miðjan dag: “Óðinn Gestsson með fyrsta lax sumarsins úr Hamarshyl. Tekin á Sunray. 4 komnir á land og misstum 5. Mikið líf um alla á.” Myndina má sjá hér fyrir neðan.