Að mestu verður skipulag fyrir 2018 það sama og áður og verður jafnvel enn meiri sveigjanleiki á gistingu og fæði í veiðihúsum okkar fyrir austan í Breiðdalsá og Jöklu og hægt að kaupa þar staka daga meira en verið hefur. Verð laxveiðileyfa verða lækkuð í Breiðdalsá og efri svæðum Jöklu og óhætt að segja að þau séu í hóflegri kantinum miðað við margar aðrar ár. Sjá má nú öll verð fyrir 2018 á vef okkar undir “Veiðileyfi” og bókanir skulu sendar á netfangið  ellidason@strengir.is eða hafa samband í gsm 660 6890  En skoðum nánar hér fyrir neðan veiðitölur 2017 og hvað er framundan næsta ár.

BREIÐDALSÁ var með mikla niðursveiflu en 106 laxar voru bókaðir í veiðibók. Reyndar byrjaði veiðin þokkalega en dró af er leið á sumarið enda vantaði meira af smálaxi eins og víðar á norðausturlandi og einnig voru aðstæður óvenju slæmar. Engin úrkoma var í júlí og ágúst og menn muna ekki aðra eins þurrka sem hafði slæmar afleiðingar fyrir ágústmánuð sérstaklega. Og í september gerði nokkur stórflóð sem hömluðu veiði svo það var annaðhvort í ökkla eða eyra er óhætt að segja með aðstæður sumarsins. En einn af stærstu löxum á landinu kom á land úr Sveinshyl í byrjun september eða 108 cm hængur sem er stærsti lax í sögu Breiðdalsár svo vitað sé. Sjóbleikjuveiðin var um 150 fiskar og ríflega 500 urriðar sem gerir þetta með bestu silungsveiðiám austurlands. Svo samtals veiddust því tæplega 800 fiskar í heildina úr vatnakerfi Breiðdalsár.Lækkað verð verður á veiðileyfum sumarið 2018 í Breiðdalsá og má segja að þau séu mjög hófleg miðað við margar aðrar veiðiár.

Jöklusvæðið kom ágætlega út 2016, heildarlaxveiði 355 laxar og er þá talin með Fögruhlíðará. Fylgir hún með Jöklu I svæðinu en Fögurhlíðarósinn er seldur sér. Metveiði var á silungi á þessum vatnavæði, sérstaklega í Fögruhlíðará en samtals er bókaðar 502 sjóbleikjur og 154 sjóbirtingar/urriðar sem er mikil aukning. Með silungsveiðinni er heildarveiðin um 1000 fiskar á Jöklusvæðunum öllum.Verð veiðileyfa á svæðinu Jöklu I og Fögruhlíðará verður óbreytt milli ára en lækkar á efri svæðum eins og sjá má á vef okkar undir veiðileyfi á forsíðu.Nánari upplýsingar um veiðina í Jöklu 2017 verður sett á facebook síðu okkar síðar.

Minnivallalækur var með svipaða veiði og undanfarin ár eða tæplega 300 urriða, en marga stóra. Nýjir veiðistaðir uppgötvuðust 2016 fyrir ofan Veiðihúsið Lækjamót og fjölbreyttni svæðisins jókst mikið við það. Stangardagurinn verður að mestu óbreyttur á kr. 24.800 vor og haust og kr. 32.800 í júní og ágúst, og innifalið er alltaf uppábúið herbergi í Veiðihúsinu Lækjamót. 

Hrútafjarðará gaf 384 laxa sem rétt undir meðalveiði árinnar en er samt frábær veiði á einungis þrjár stangir. Einnig eru 136 bleikjur skráðar í veiðibók sem er góð aukning frá fyrri árum. Ekki verður komist hjá verðhækkunum í Hrútu sumarið 2018 enda hefur kostnaður vegna leigu og seiðasleppinga verið að hækka árlega.Flestir vilja halda sínum hollum en áhugasamir eru settir á biðlista.

Hlakka til að heyra í ykkur.

Kveðja,
Þröstur Elliðason