Nú er stangveiðitímabilinu lokið í öllum okkar ám og verið er að fara yfir veiðibækur og vinna úr þeim allskonar tölfræði.

Bráðabirgðaniðurstöður fyrir Jöklusvæðið eru eftirfarandi:
Lax (Jökla+Fögruhlíðará): 528 laxar
Silungsveiði í Jöklu: 184 bleikjur og 19 urriðar
Silungsveiði í Fögruhlíðará: 278 bleikjur og 144 urriðar
Samtals 625 silungar sem er mjög góð veiði en ekki er gerður greinarmunur á sjógengnum og staðbundnum silungum í þessum tölum.

Á myndinni má sjá unga veiðikonu sleppa 78 cm nýgenginni hrygnu í Laxá, hliðará Jöklu. Þessi kaldi septembermorgun skilaði 5 löxum úr Laxá.
Þetta eru vel ásættanlegar niðurstöður, 51% aukning í laxveiði frá 2017 þrátt fyrir að missa 7 vikur af veiðitíma í Jöklu sjálfri sökum yfirfalls sem kom óvenju snemma. Þökk sé köldu hausti þá er vatnsstaðan í Hólslóni núna vel undir meðallagi og 5 vikum á undan árinu í fyrra. Það stefnir því að ástandið næsta sumar verði eðlilegt og yfirfallið hrelli okkur ekki fyrr en í september.
Frekari tölfræði um veiðina á Jöklusvæðinu birtist á næstunni.

Sett í lax í Einarshyl í Breiðdalsá í sumar.
Breiðdalsá gaf 110 laxa sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári. En silungsveiðin var einstaklega góð og eru 751 silungar skráðir í veiðibók, þar af 484 urriðar og 267 sjóbleikjur. Seiðasleppingar heppnuðust mjög vel í vor og horfir til betri vegar með laxveiði í þessarri fallegu veiðiá á næsta sumri.

Stórlax úr Réttarfossi í Hrútu núna í haust!
Hrútafjarðará gaf 360 laxa sem er nálægt veiði sumarsins 2017 svo sáralítil niðursveifla er hjá henni miðað við aðrar ár á þessum landshluta. En það vekur athygli að sjóbleikjuveiðin hefur margfaldast miðað við undanfarin ár en ríflega 200 bleikjur eru skráðar núna í veiðibók.